154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:20]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ef ég byrja á tekjuhliðinni þá þykir mér við verða að hafa í huga hver heildarskattlagning er hér á landi, bara ef við skoðum niðurstöður og samanburð við OECD-ríkin og tökum þá tillit til þess hvernig lífeyrissjóðakerfi landanna eru fjármögnuð. Þar minnir mig að við séum nr. 2, næstskattpíndasta þjóð OECD-ríkjanna, ég man ekki hvort það er Sviss eða Noregur sem er í 1. sæti en ég get nú haft það á takteinunum í seinna svari. Mér hugnast það því ágætlega ef heildarhlutfall skatttekna mjakast niður á við en ég hefði viljað sjá hlutfall heildarútgjalda fara niður á við sömuleiðis, einfaldlega vegna þess að ef eitthvað er að marka þau sjónarmið sem iðulega koma fram um að það sé eitthvert rekstrarlegt virði til að mynda, í stærðarhagkvæmni ætti samfélagið jafnt og þétt að geta gert sér lægri hlutfallstölu að góðu í þessum efnum. Það er ekki þróunin.

Ég verð nú að viðurkenna að ég verð að fá að sjá þessar tölur hjá hv. þingmanni. Ég hef ekki skoðað þetta með þessum gleraugum þannig að ég á erfitt með að átta mig á þessu og sé ekki alveg fyrir sveiflurnar. Ég get alveg ímyndað mér að þessi hlutföll hafi verið mjög ólík í fyrra þegar útgjaldavöxtur á milli ára var 193 milljarðar að nafnvirði og tekjurnar alveg örugglega umtalsvert lægri en núna er bara í ljósi þess að þá var samfélagið að koma út úr áhrifum Covid-faraldursins. En ég stend við það að þetta sé útgjaldavandi sem við eigum í höggi við en ekki tekjuvandi. Hann felst í því að útgjöldin eru á eða yfir meðaltali þessa tímabils (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður tilgreinir í stað þess að þau mjakist niður til samræmis við heildarskatttekjurnar.